Svört vinna eykst við hærri jaðarskatta

Þingmönnum virðist koma það á óvart að svört atvinnustarfsemi hafi aukist verulega frá hruni. Gott ef Skúla Helgasyni þykir það ekki nægilega markvert til að kalla saman fund. En það eina sem ætti að koma á óvart er hversu undrandi Skúli og aðrir þingmenn eru á eðlilegri afleiðingu gerða sinna.

Eins og Sigríður Andersen bendir svo skilmerkilega á, í grein í Morgunblaðinu í dag, er verið að gera atvinnu fólks að dýru jaðarsporti. Sigríður bendir á að jafnvel hjón með frekar lágar tekjur, til dæmis 200 þúsund krónur á mánuði, sem eru í lægsta tekjuskattsþrepinu bæta aðeins við sig ríflega 3 þúsund krónum með því að taka til dæmis aukavinnu á laugardegi upp á 10 þúsund krónur. Þau halda aðeins rétt rúmlega 30% teknanna!

Og þegar atvinnuleysisbætur eru hækkaðar, jaðarskattar hækkaðir, hvers konar bætur skertar við alla tekjuaukningu er útkoman einföld: aukning í svartri atvinnustarfsemi. Svört atvinnustarfsemi og bótasvik eru siðlaus, en það eru stjórnvöld sem með ósanngjörnu og ógegnsæju skatta- og bótakerfi sínu skapa hvata til svartrar vinnu. Skattlagning upp á 60 - 80% af tekjum er auðvitað þrældómur í annarra þágu.

Grein Sigríðar er að finna á heimasíðu hennar www.sigridur.is, en einnig má lesa grein hennar á vef Samtaka skattgreiðenda, www.skattgreidendur.is.


mbl.is 82% segja svarta vinnu vaxandi vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þung skattlagning með nýrri byggingarreglugerð

Samtök skattgreiðenda hafa frá því í vor reynt að benda á hvílík skattlagning á nýbyggingar er falin í nýrri útgáfu byggingarreglugerðarinnar. Reglugerðin á að taka gildi 1. janúar 2013 og mun hafa slík áhrif á byggingakostnað að líklegt er að kosta muni íbúðakaupendur milljarða króna á næstu árum. Samtökin skrifuðu Mannvirkjastofnun bréf og óskuðu þess að fá upplýsingar um kostnaðaráhrif nýju reglugerðarinnar, enda hljóti að sú hlið mála hafa verið skoðuð. En í ljós kemur að engir slíkir útreikningar hafa verið gerðir. Aðeins er með almennum orðum talað um að ætla megi að kostnaðaráhrif séu léttvæg. Sýnt hefur verið fram á annað um um það má lesa á heimasíðu Samtaka skattgreiðenda. www.skattgreidendur.is.

Ótrúlegt má telja að jafn mikinn kostnað megi leggja á kaupendur nýrra íbúða án þess að það eigi sér nokkra stoð í auknu öryggi eða gæðum, heldur aðeins pólitísku viðhorfi ráðherra um algilda hönnun og meinta sjálfbærni. 

Jafnframt fylgja nýju reglugerðinni smásmyglisleg fyrirmæli um innra fyrirkomulag íbúðarhúsnæðis sem ekki ætti undir nokkrum kringumstæðum að koma embættis- eða stjórnmálamönnum við.

Það kemur verulega á óvart að Samtök iðnaðarins og aðrir hagsmunaaðilar skuli fyrst nú vera að vakna til lífsins. Kannski hefur það eitthvað með það að gera að Mannvirkjastofnun segir þessa aðila alla hafa komið að gerð nýju reglugerðarinnarog hrósar sjálfri sér fyrir samráðsferil við gerð hennar.

Upplýsingum um samskipti Samtaka skattgreiðenda og Mannvirkjastofnunar hefur verið komið á framfæri við fjölmiðla og er það von Samtakanna að um málið verði nú fjallað af fullri alvöru. Gott er til þess að vita að um málið er aðeins fjallað í Morgunblaðsinu nú í morgun og mbl.is í dag.


mbl.is Íbúðir of dýrar fyrir ungt fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkun í boði Einars K. Guðfinnssonar

Á vef Samtaka skattgreiðenda er í dag fjallað um þessa frétt mbl.is frá því fyrr í dag. Fyrirsögnin er „Frumvarp um lækkun húshitunarkostnaðar", en á með réttu að vera hækkun á raforkuskatti. Talað er um jöfnunargjald í stað skatts, enda hljómar það betur. En sannanlega er hér um að ræða skattlagningu á 90% neytenda.

Hvers vegna á að niðurgreiða búsetuákvörðun fólks? Hvers vegna á að falsa forsendur búsetu? Og er allt skal jafna, því þá staldra aðeins við þennan lið? Hvað með tekjur? Kosningarétt? 

Hvernig ætlar Einar K. Guðfinnsson að selja skattalækkanahugmyndir Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu kosningar með þetta í farteskinu?

 


mbl.is Frumvarp um lækkun húshitunarkostnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtök skattgreiðenda á blogginu

Samtök skattgreiðenda voru stofnuð þann 16. apríl, 2012.

Að stofnun þeirra stóð hópur fólks sem vill beita sér fyrir því að:

  • endurvekja vitund almennings um að vöxtur hins opinbera er ekki óhjákvæmilegur 
  • ríki og sveitarfélög séu ekki rekin með halla og reikningurinn sendur kynslóðum framtíðarinnar
  • skattar verði lækkaðir eftir megni 
  • hið opinbera fari betur með skattfé og leiti nýrra lausna til að bæta rekstur sinn 
  • rödd skattgreiðenda heyrist í opinberri umræðu og að sjónarmið þeirra fái aukið vægi 
Á síðustu árum hafa yfir hundrað skattahækkanir dunið á okkur auk þess sem á annan tug nýrra skatta hafa litið dagsins ljós. Íslenskur almenningur og fyrirtæki ganga nú hokin undir farginu. Samtök skattgreiðenda vilja aðrar lausnir og sjálfbærari. Lausnir sem stuðla að endurreisn atvinnulífsins. Lausnir sem virkja fólk til atvinnuþátttöku en hegna því ekki með ofursköttum. Samtökin vilja endurvekja trú á sparnað og vilja einfalt og gagnsætt skattaumhverfi sem laðar þennan vilja fram. Og Samtökin vilja draga úr útgjöldum og minnka ríkisbáknið. Samtökin hyggjast láta til sín taka með greinaskrifum, fréttatilkynningum og auglýsingum í fjölmiðlum og munu halda úti öflugri gagnvirkri heimasíðu. Þá munu Samtökin efna til funda og fyrirlestra eftir því sem tilefni gefur til og standa fyrir mótmælaaðgerðum. Þá munu Samtökin skora á frambjóðendur í komandi prófkjörum og kosningum að skrifa undir heit um að hækka ekki skatta heldur lækka og beita sér fyrir minna og skilvirkara regluverki hins opinbera.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband