Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Málþing um grunnskólann okkar

Samtök skattgreiðenda halda ráðstefnu um nýja nálgun og hugsun í rekstri grunnskólans. Kostnaður við grunnskólann er óvíða meiri en á Íslandi samkvæmt nýlegri skýrslu frá OECD. Getur önnur nálgun við rekstur grunnskólans verið skilvirkari og skilað sambærilegum eða betri árangri í kennslu?

Fyrir 20 árum var svokallað ávísanakerfi tekið upp í Svíþjóð, þar sem kostnaðurinn við skólagönguna fylgir barninu, ekki tilteknum skóla. Foreldrum er heimilt að velja grunnskóla fyrir börn sín og  greiðslan fer til þess skóla sem valinn er. Skólarnir eru mismunandi og ýmist reknir af sveitarfélögum, sjálfeignarstofnunum eða fyrirtækjum. Tryggir samkeppni betri skilvirkni og meiri framþróun í skólastarfi  nemendum til heilla?

Á Íslandi eru reknir nokkrir sjálfstætt starfandi skólar, en innan við 1% nemenda grunnskólans sækja slíka skóla.  Þessum skólum er í flestum tilvikum ekki búið sama umhverfi og skólum sem sveitarfélögin reka, en með undantekningum þó. Ráðstefnan fjallar einnig um stöðu þeirra í dag.

Ráðstefnan verður haldin í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 23. nóvember og hefst kl. 14:00. 

Frekari upplýsingar á vef Samtaka skattgreiðenda.


Valkvæð opinber útgjöld

Hin síðari ár er sífellt meira rætt um frelsi, lýðræði og þjóðarvilja, rétt eins og þjóð geti haft sameiginlegan vilja í einhverju máli. Þjóð hefur auðvitað engan vilja, aðeins einstaklingar geta haft vilja eða skoðun.

Og þennan vilja einstaklinganna er sáraeinfalt að fá fram um eitt mesta hagsmunamál allra landsmanna: útgjöld hins opinbera - ríkis og sveitarfélaga.

Á hverju ári þurfa allir íslendingar að fylla út skattskýrslu. Væri ekki við það tækifæri einfalt að fá fram vilja fólks til greiðslu einstakra útgjaldaliða sem ekkert hafa að gera með t.d. menntun eða heilsugæslu, nú eða jafnvel millifærslukerfið. Auðvitað geta afborganir og vaxtagreiðslur af óráðsíu fyrri ára ekki verið valkvæðar (því miður).

En má ekki framlag til t.d. Ríkisútvarpsins, menningar- og íþróttatengdra útgjaldaliða, eftirlitsstofnana, utanríkisþjónustunnar o.fl. vera valkvætt? Ef mikilvægi eintakra útgjaldaliða er sú sem fyrir borð skattgreiðenda er lagt af stjórnvöldum er ekkert að óttast. Ef skattgreiðendur eru hæfir til að kjósa sér fulltrúa til að ráðstafa þessum fjármunum hljóta þeir að vera færir um að gera það sjálfir. Skattgreiðendur einfaldlega merkja við hvað af þessum liðum þeir eru tilbúnir til að greiða til. Og ef þeir hafna öllum valkostunum á skattskýrslunni fá þeir afslátt af sköttum sínum, eða, ef það þykir fullkomin óhæfa, fá þá að ráðstafa sköttunum í önnur útgjöld hins opinbera að eigin vali.

Ætli tækjakostur spítalanna væri jafn slakur og raun ber vitni ef þessi aðferð yrði viðhöfð? Og ef SÁÁ eða önnur sambærileg samtök telja sig hlunnfarin í úthlutun ríkisúgjalda er sjálfsagt að gera greiðslur til þeirra valkvæðar. Væntanlega treysta þau því að fleiri en ekki styðji málstað þeirra.

Er enginn þingmaður sem treystir sér til að taka þetta mál upp? Ekki á þetta að vera svo flókið. Í fyrstu þyrfti ekki að gera fleiri en 10 - 20 útgjaldaliði valkvæða. Þegar fram líða stundir má þannig leggja nýja útgjaldaliði fyrir skattgreiðendur áður en til útgjaldanna er stofnað.

Með þessu kæmist meira jafnræði á í samfélaginu - þeir sem hlynntir eru háum sköttum og miklum ríkisútgjöldum fengju nú í fyrsta sinn tækifæri til að borga hærri skatta án þess að þeir sem eru á öndverði skoðun þyrftu að fylgja þeim.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband