Orð eru eitt, efndir annað
28.10.2012 | 12:18
Fyrr á þessu ári skrifaði ráðherra í núverandi ríkisstjórn í blaðagrein:
Við þurfum að skoða gagnrýnið hina efnahagslegu hlið ferðamennskunnar, hvernig við getum sem best tryggt stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu svo og samfélagsins sem veitir margvíslega þjónustu - allt þetta þó með það í huga að landið verði aðgengilegt efnalitlu fólki ekkert síður en efnafólki
Væntanlega er það með þetta markmið í huga sem þessi ráðherra mun standa að margföldun á virðisaukaskatti á gistingu og stórfellda hækkun á verði bílaleigubíla. Það tryggir væntanlega stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu og eykur aðgengi efnalítils fólks að landinu, eða hvað?
Það er skoðun Samtaka skattgreiðenda að skattar eigi að vera einfaldir og gegnsæir. Þannig á sama virðisaukaskattsprósenta að leggjast á alla vöru og þjónustu, undantekningalaust - en þá mun lægri prósenta en nú er. Og hvorki bílaleigur né önnur fyrirtæki eða einstaklingar eiga að njóta sérkjara á gjöldum af bifreiðum eða öðrum vörum. Um þessi mál má lesa á vefsíðu Samtaka skattgreiðenda.
En hækkun skatta á ferðaþjónustuna í dag er til þess fallin að skaða verulega þessa atvinnugrein sem er í eðli sínu viðkvæm fyrir verðbreytingum. Það sést best á þeirri miklu aukningu ferðamanna sem orðið hefur eftir hrun. Augljósa skýringin á þeirri aukningu er gengisfall íslensku krónunnar þó ýmsir reyni að eigna sér þessa aukningu á öðrum forsendum.
Allir hefðu gott af að lesa grein ráðherrans, Ögmundar Jónassonar, sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 22. júlí sl. undir fyrirsögninni Viljum við rjúfa kyrrð öræfanna. Ósamræmið í orðum og gerðum er rannsóknarefni stjórnmálafræðinga framtíðarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.