Besti flokkurinn hefur dælt fé í Bíó Paradís
19.1.2014 | 18:31
Besti flokkurinn hefur haldið mikið upp á Bíó Paradís frá því hann komst til valda. Alls hefur þetta kvikmyndahús fengið styrki frá borginni upp á 36,5 milljónir árin 2010 - 2013. Og Besti flokkurinn hefur jafnframt tryggt kvikmyndahúsinu 29 milljónir á næstu tveimur árum (14,5 milljónir árin 2014 og 2015). Þessu til viðbótar á nú að færa þeim þessar 8 milljónir í stuðning við kvikmyndahátíð.
Dekrið við þetta kvikmyndahús ætlar að reynast skattgreiðendum dýrt. Á sama tíma heldur borgin uppi starfsemi Tjarnarbíós, þar sem einnig má sýna kvikmyndir, og ríkið heldur úti Bæjarbíói. Allur þessi stuðningur við miðil sem engan stuðning þarf til sýningar - nálgast má kvikmyndir með ódýrum og auðveldum (löglegum) hætti án aðkomu hins opinbera. En óvirðing stjórnmálamanna við annarra manna fé lætur ekki að sér hæða.
Riff var ekki lengi í (Bíó) Paradís | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
NEI við kröfum KSÍ
11.10.2013 | 15:16
Loks kom að því að sveitarstjórnarmaður benti á hið augljósa; að kröfur KSÍ til áhorfendaaðstöðu liða í efri deildum knattspyrnunnar eru fásinna Og þess valdandi að skattgreiðendur eru látnir borga fyrir misráðnar og illa nýttar fjárfestingar. Kominn er tími til að vísa þessum kröfum til föðurhúsanna og krefjast þess að annað tveggja gerist; að KSÍ fjármagni framkvæmdirnar, eða að kröfunum verði breytt.
Að byggja yfir áhorfendaaðstöðu þar sem leiknir eru 11 leiknir á ári og að meðaltali innan við 1.000 manns sækja er auðvitað fráleitt. En lið sem komast í efstu deild karla í knattspyrnu búa við þetta skilyrði. Fyrsta deildin sleppur aðeins betur, en litlu þó.
Ef lið nær þeim árangri að komast í efstu deild karla er heimilt að veita því undanþágu á fyrsta ári, og e.t.v. lengur, en fyrr eða síðar mun þurfa að byggja yfir áhorfendasvæðið að kröfu KSÍ. Að sjálfsögðu hefur ekkert íþróttafélag bolmagn til þess og því er leitað til sveitarfélagsins. Þrýstingurinn er á sveitarstjórnarfólk frá aðstandendum íþróttafélagsins. Og enginn sveitarstjórnarmaður vill vera talinn vinna gegn íþróttastarfi. Það er því ástæða til að taka undir þegar formaður bæjarráðs Akureyrar bendir á hið augljósa; að það er fásinna að að verja 100 milljónum í þak á stúku. Lesa má viðtalið á nordursport.net.
KSÍ ber fyrir sig reglur frá UEFA, en jafnvel knattspyrnusamband Evrópu sæi í gegnum fingur sér fyrir 300 þúsund manna þjóð. Og sérstaklega þegar haft er í huga að engin dæmi eru á Íslandi um þaun vandamál sem upphaflega komu af stað ströngum kröfum um gerð um umbúnað knattspyrnuleikja; ofbeldi með áhangenda.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lokað á úthverfin, lokað á fyrirspurnir
21.3.2013 | 20:07
Hér varð hrun" ætlar að duga stjórnmálamönnum út í eitt þegar kemur að afsökunum fyrir slökum rekstri, hárri skattheimtu, eða bara almennu dugleysi.
Jón Gnarr og borgarstjórnarmeirihlutinn er hér engin undantekning. Ef fyrirspurnir hefðu verið heimilar á borgararfundi fyrir íbúa Úlfarsársdals hefði kannski mátt spyrja hann af hverju hann miði við árið 2008 þegar hann talar um að tekjur Reykjavíkurborgar hafi dregist saman. Hvers vegna leyfist honum það sem engum öðrum dettur í hug; að telja 2008 eðlilegt viðmiðunarár. Allir venjulegir borgarar hafa fyrir löngu áttað sig á að 2008 var skelfilegt bóluár, sem vonandi kemur aldrei aftur. Samdrátturinn er ekki meinið - bólan var meinið, samdrátturinn afleiðingin.
Hvar standa tekjur Reykjavíkurborgar í dag miðað við 2004, 2005 eða jafnvel 2006?
Hvers vegna eiga skattgreiðendur að fella tár yfir því hversu líf Jóns Gnarr og annarra stjórnmálamanna hefur verið erfitt? Ekki borga þeir óreiðuna, hvorki fyrir né eftir hrun. Þeir fara ekki með eigið fé og það sést svo sannarlega. Af hverju er ekki útskýrt hvernig borgin hafði efni á að kaupa Alliance húsið, Perluna, byggja og borga fyrir Hörpu í 35 ár, endurnýja Tjarnarbíó og eyða í fjöldamörg áhugamál fárra á kostnað fjöldans, þegar skorin er niður fyrirhuguð uppbygging í nýju úthverfi? Hvers á það fólk að gjalda?
Það verður ekki útskýrt - því það hefur verið skrúfað fyrir fjárfestingar fyrir venjulegt fólk og skrúfað fyrir möguleika þess að spyrja borgarstjórann hverju það sæti.
Erfitt að horfa framan í reitt fólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Góðar fréttir úr Innanríkisráðuneytinu
19.3.2013 | 17:43
Samtök skattgreiðenda hafa áður vakið athygli á athyglisverðum samningi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps við Hjallastefnuna um rekstur leik-, grunn- og tónlistarskólans í sveitarfélaginu. Virtist almennt ánægja með þennan samning. Menningar- og menntamálaráðuneytið, svo og forsvarsmenn Félags grunnskólakennara í Kennarasambandi Íslands, töldu á hinn bóginn sveitarfélaginu beinlínis óheimilt að reka ekki grunnskóla á eigin vegum. Eins sérkennilegt og það nú er.
En í frétt í Morgunblaðinu 18. mars kemur fram að Innanríkisráðu- neytið hefur tekið af skarið og staðfest sjálfsákvörðungarrétt sveitarfélagsins í þessu máli, og þar með annarra sveitarfélaga til að leita svipaðra lausna.
Samtök skattgreiðenda héldu málþing í nóvember á síðasta ári um fjármögnun grunnskólans í Svíþjóð. Þar fylgir framlag sveitarfélagsins barninu, en ekki tilteknum skólum, og foreldrar hafa frelsi til að velja skóla fyrir börn sín. Kerfið var tekið upp í Svíþjóð árið 1991 og á þessum 20 árum hefur náðst marktækur árangur í gæðum náms og stöðu grunnskólans í alþjóðlegum samanburði. Nánar má fræðast um málþingið og valkortakerfið í Svíþjóð á vef Samtaka skattgreiðenda.
Harpa er ævintýraheimur ...
18.3.2013 | 17:18
Björn Theódór Árnason, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna, skrifaði grein í Morgunblaðið 7. desember 2012, með þessari skemmtilegu fyrirsögn:
Harpa er ævintýraheimur og þar gerast ævintýri á hverjum degi."
Mikið hefur Björn rétt fyrir sér. Á hverjum degi leggja skattgreiðendur fram yfir 3 milljónir króna svo þessi ævintýraheimur Björns geti staðið undir sér. Það eitt og sér er ævintýri líkast að tekist hafi að selja meirihluta þingmanna og borgarfulltrúa þá hugmynd að áhugamál örfárra skuli niðurgreitt af skattgreiðendum um ókomna tíð með fáheyrðum fjárhæðum.
Umsvipað leyti (22.12.12) skrifaði Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, líka grein í sama blað, þar sem tekið var í svipaðan streng, en fer þó aðeins nánar í rekstur hússins, eða þá botnlausu hít sem sá rekstur er. Um margt er í greininni fjallað um kostnað og tekjur, en í engu er þess getið að e.t.v. væri skynsamlegt að innheimta hærri gjöld af þeim sem nú þegar sækja viðburði hússins, enda væri það vart við hæfi að, eða hvað? Þeir eiga varla að borga fyrir ævintýrin sem þeirra njóta?
Og ævintýrin gerast enn. Þann 12. febrúar mátti lesa þessa fyrirsögn á frétt á forsíðu Fréttablaðsins:
Tveir milljarðar forða Hörpu frá gjaldþroti
Og undirfyrirsögnin var Ríki og Reykjavíkurborg ætla að gefa eftir um 800 milljóna skuld vegna Hörpu. Vantar samt sem áður 1,2 milljarða til að lifa fram til ársloka 2016. Yfirtaka ríkis og borgar átti ekki að fela í sér aukinframlögn þegar tilkynntar var um hana árið 2009.
Stórkostlegt ævintýri ... allt í boði skattgreiðenda.
Pétur Blöndal þingmaður komst vel að orði þegar hann sagði um Hörpu ævintýrið:
Draumur fárra er að breytast í martröð margra."
Undanþágu fyrir alla
17.3.2013 | 16:05
Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram á Alþingi Stjórnarfrumvarp um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Samkvæmt samningi þessum er fyrirtækinu PCC, sem hyggst reisa kísilverið, tryggð sérréttindi umfram öll önnur fyrirtæki á Íslandi. Auk þess að geta fjárfest á Íslandi með sérstökum afslætti í boði Seðlabanka Íslands (fjárfestingarleiðin) og ýmissa ívilnana sem heimild er fyrir í lögum nú þegar þá verður þetta fyrirtæki undanþegið almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi. Nokkuð sem engum íslenskum fyrirtækjum stendur til boða.
Hvernig skyldi standa á því að öll lögmál skattheimtu virðast Steingrími J. Sigfússyni eingöngu virka í hans eigin kjördæmi. Aðeins í Norðausturkjördæmi virðist það eiga við að yfirgengileg skattheimta hamlar arðskapandi fjárfestingu og því ber að veita þar sérstaka undanþágu.
Sannleikurinn er sá að gjaldeyrishöft og deyðandi skattlagningarstefna stjórnvalda er að ganga af allri fjárfestingu og uppbyggingu á Íslandi dauðri eins og nýlegar tölur Hagstofunnar sýna.
Allt landið þarf á undanþágu Steingríms J. að halda, ekki bara eitt erlent stórfyrirtæki í kjördæmi hans - svona korteri fyrir kosningar.
Málþing um grunnskólann okkar
21.11.2012 | 20:59
Samtök skattgreiðenda halda ráðstefnu um nýja nálgun og hugsun í rekstri grunnskólans. Kostnaður við grunnskólann er óvíða meiri en á Íslandi samkvæmt nýlegri skýrslu frá OECD. Getur önnur nálgun við rekstur grunnskólans verið skilvirkari og skilað sambærilegum eða betri árangri í kennslu?
Fyrir 20 árum var svokallað ávísanakerfi tekið upp í Svíþjóð, þar sem kostnaðurinn við skólagönguna fylgir barninu, ekki tilteknum skóla. Foreldrum er heimilt að velja grunnskóla fyrir börn sín og greiðslan fer til þess skóla sem valinn er. Skólarnir eru mismunandi og ýmist reknir af sveitarfélögum, sjálfeignarstofnunum eða fyrirtækjum. Tryggir samkeppni betri skilvirkni og meiri framþróun í skólastarfi nemendum til heilla?
Á Íslandi eru reknir nokkrir sjálfstætt starfandi skólar, en innan við 1% nemenda grunnskólans sækja slíka skóla. Þessum skólum er í flestum tilvikum ekki búið sama umhverfi og skólum sem sveitarfélögin reka, en með undantekningum þó. Ráðstefnan fjallar einnig um stöðu þeirra í dag.
Ráðstefnan verður haldin í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 23. nóvember og hefst kl. 14:00.
Frekari upplýsingar á vef Samtaka skattgreiðenda.
Valkvæð opinber útgjöld
3.11.2012 | 16:40
Hin síðari ár er sífellt meira rætt um frelsi, lýðræði og þjóðarvilja, rétt eins og þjóð geti haft sameiginlegan vilja í einhverju máli. Þjóð hefur auðvitað engan vilja, aðeins einstaklingar geta haft vilja eða skoðun.
Og þennan vilja einstaklinganna er sáraeinfalt að fá fram um eitt mesta hagsmunamál allra landsmanna: útgjöld hins opinbera - ríkis og sveitarfélaga.
Á hverju ári þurfa allir íslendingar að fylla út skattskýrslu. Væri ekki við það tækifæri einfalt að fá fram vilja fólks til greiðslu einstakra útgjaldaliða sem ekkert hafa að gera með t.d. menntun eða heilsugæslu, nú eða jafnvel millifærslukerfið. Auðvitað geta afborganir og vaxtagreiðslur af óráðsíu fyrri ára ekki verið valkvæðar (því miður).
En má ekki framlag til t.d. Ríkisútvarpsins, menningar- og íþróttatengdra útgjaldaliða, eftirlitsstofnana, utanríkisþjónustunnar o.fl. vera valkvætt? Ef mikilvægi eintakra útgjaldaliða er sú sem fyrir borð skattgreiðenda er lagt af stjórnvöldum er ekkert að óttast. Ef skattgreiðendur eru hæfir til að kjósa sér fulltrúa til að ráðstafa þessum fjármunum hljóta þeir að vera færir um að gera það sjálfir. Skattgreiðendur einfaldlega merkja við hvað af þessum liðum þeir eru tilbúnir til að greiða til. Og ef þeir hafna öllum valkostunum á skattskýrslunni fá þeir afslátt af sköttum sínum, eða, ef það þykir fullkomin óhæfa, fá þá að ráðstafa sköttunum í önnur útgjöld hins opinbera að eigin vali.
Ætli tækjakostur spítalanna væri jafn slakur og raun ber vitni ef þessi aðferð yrði viðhöfð? Og ef SÁÁ eða önnur sambærileg samtök telja sig hlunnfarin í úthlutun ríkisúgjalda er sjálfsagt að gera greiðslur til þeirra valkvæðar. Væntanlega treysta þau því að fleiri en ekki styðji málstað þeirra.
Er enginn þingmaður sem treystir sér til að taka þetta mál upp? Ekki á þetta að vera svo flókið. Í fyrstu þyrfti ekki að gera fleiri en 10 - 20 útgjaldaliði valkvæða. Þegar fram líða stundir má þannig leggja nýja útgjaldaliði fyrir skattgreiðendur áður en til útgjaldanna er stofnað.
Með þessu kæmist meira jafnræði á í samfélaginu - þeir sem hlynntir eru háum sköttum og miklum ríkisútgjöldum fengju nú í fyrsta sinn tækifæri til að borga hærri skatta án þess að þeir sem eru á öndverði skoðun þyrftu að fylgja þeim.
Enn fara kröfugerðamenn fram með áhugamál sín
30.10.2012 | 16:43
Í dag birtir Morgunblaðið grein um kröfu SÁÁ til 10% þess áfengisgjalds sem ríkissjóður innheimtir. Munu 19.000 manns hafa skrifað nöfn sín á undirskriftalista, þar á meðal nokkur sveitarfélög. Söfnunin gengur undir nafninu Betra líf og er ekki skilgreind frekar. SÁÁ eru samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda og þiggja þau nú samkvæmt fjárlögum næsta árs 686 milljónir í styrk frá ríkinu. Hvert framlag áhugamannahópsins til verkefnisins er liggur ekki fyrir. Samkvæmt tölum formanns samtakanna á síðu SÁÁ er áætlað að ríkissjóður innheimti á næsta ári 11.8 milljarða í áfengisgjöld og sem lætur nærri að SÁÁ sé því að gera kröfu um að fá í sinn rekstur 1.200 milljónir úr ríkissjóði, þ.e. 500 milljónum meira en þessar 686 milljónir sem þeir eiga nokkuð vísar á næsta ári.
Nú er ekki að efa að vandi SÁÁ er stór en samtökin hafa líka haft nokkuð sjálfdæmi um að skilgreina þarfir sínar. En er réttlætanlegt að félag áhugamanna um vímuefnavanda hafi beinan aðgang að ríkissjóði? Í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar hafa áfengisgjöld verið hækkað þrisvar sinnum, árið 2009, 2010 og 2011. Þessi aukning kemur úr vösum viðskiptamanna sem eiga ekkert val um hvert þeir beina viðskiptum sínum. Ekki hefur komið fram hvernig áfengisgjaldinu eða tengdum gjöldum (vanrækslugjöldum, tollum og virðisaukaskatti) er annars varið, þ.e. hvort gjaldið renni óskipt til málefna vímuvarna eða hvort klipið sé af því til sérstakra hugðarefna ríkisstjórnarinnar. Má þó gera ráð fyrir að vímuefnadeild Landspítalans og aðrar skyldar stofnanir fái hluta gjaldsins og fjárveiting SÁÁ komi einnig úr þessum potti. Auk þess er Lýðheilsusjóður áskrifandi að 1% innheimts gjalds og fer annað 1% til Forvarnasjóðs. Geri maður ráð fyrir að um samnýtingarpott sé að ræða og fái SÁÁ 500 milljón króna hækkun úr pottinum þarf að gera grein fyrir frá hverjum þessir peningar eru teknir og þá hvort hækka þurfi áfengisgjaldið enn á ný eða leggja á nýja skatta.
Síðast en ekki síst þurfa menn að gera sér grein fyrir að fái SÁÁ kröfu sinni framgengt hefur ríkið gefið eftir stjórn sína á hvaða þjónustu hún kaupir og hvaða þjónustu sé eðlilegt að ríkið greiði fyrir.
Orð eru eitt, efndir annað
28.10.2012 | 12:18
Fyrr á þessu ári skrifaði ráðherra í núverandi ríkisstjórn í blaðagrein:
Við þurfum að skoða gagnrýnið hina efnahagslegu hlið ferðamennskunnar, hvernig við getum sem best tryggt stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu svo og samfélagsins sem veitir margvíslega þjónustu - allt þetta þó með það í huga að landið verði aðgengilegt efnalitlu fólki ekkert síður en efnafólki
Væntanlega er það með þetta markmið í huga sem þessi ráðherra mun standa að margföldun á virðisaukaskatti á gistingu og stórfellda hækkun á verði bílaleigubíla. Það tryggir væntanlega stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu og eykur aðgengi efnalítils fólks að landinu, eða hvað?
Það er skoðun Samtaka skattgreiðenda að skattar eigi að vera einfaldir og gegnsæir. Þannig á sama virðisaukaskattsprósenta að leggjast á alla vöru og þjónustu, undantekningalaust - en þá mun lægri prósenta en nú er. Og hvorki bílaleigur né önnur fyrirtæki eða einstaklingar eiga að njóta sérkjara á gjöldum af bifreiðum eða öðrum vörum. Um þessi mál má lesa á vefsíðu Samtaka skattgreiðenda.
En hækkun skatta á ferðaþjónustuna í dag er til þess fallin að skaða verulega þessa atvinnugrein sem er í eðli sínu viðkvæm fyrir verðbreytingum. Það sést best á þeirri miklu aukningu ferðamanna sem orðið hefur eftir hrun. Augljósa skýringin á þeirri aukningu er gengisfall íslensku krónunnar þó ýmsir reyni að eigna sér þessa aukningu á öðrum forsendum.
Allir hefðu gott af að lesa grein ráðherrans, Ögmundar Jónassonar, sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 22. júlí sl. undir fyrirsögninni Viljum við rjúfa kyrrð öræfanna. Ósamræmið í orðum og gerðum er rannsóknarefni stjórnmálafræðinga framtíðarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)