Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Lokað á úthverfin, lokað á fyrirspurnir

„Hér varð hrun" ætlar að duga stjórnmálamönnum út í eitt þegar kemur að afsökunum fyrir slökum rekstri, hárri skattheimtu, eða bara almennu dugleysi.

Jón Gnarr og borgarstjórnarmeirihlutinn er hér engin undantekning. Ef fyrirspurnir hefðu verið heimilar á borgararfundi fyrir íbúa Úlfarsársdals hefði kannski mátt spyrja hann af hverju hann miði við árið 2008 þegar hann talar um að tekjur Reykjavíkurborgar hafi dregist saman. Hvers vegna leyfist honum það sem engum öðrum dettur í hug; að telja 2008 eðlilegt viðmiðunarár. Allir venjulegir borgarar hafa fyrir löngu áttað sig á að 2008 var skelfilegt bóluár, sem vonandi kemur aldrei aftur. Samdrátturinn er ekki meinið - bólan var meinið, samdrátturinn afleiðingin.

Hvar standa tekjur Reykjavíkurborgar í dag miðað við 2004, 2005 eða jafnvel 2006?

Hvers vegna eiga skattgreiðendur að fella tár yfir því hversu líf Jóns Gnarr og annarra stjórnmálamanna hefur verið erfitt? Ekki borga þeir óreiðuna, hvorki fyrir né eftir hrun. Þeir fara ekki með eigið fé og það sést svo sannarlega. Af hverju er ekki útskýrt hvernig borgin hafði efni á að kaupa Alliance húsið, Perluna, byggja og borga fyrir Hörpu í 35 ár, endurnýja Tjarnarbíó og eyða í fjöldamörg áhugamál fárra á kostnað fjöldans, þegar skorin er niður fyrirhuguð uppbygging í nýju úthverfi? Hvers á það fólk að gjalda?

Það verður ekki útskýrt - því það hefur verið skrúfað fyrir fjárfestingar fyrir venjulegt fólk og skrúfað fyrir möguleika þess að spyrja borgarstjórann hverju það sæti.

 


mbl.is Erfitt að horfa framan í reitt fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir úr Innanríkisráðuneytinu

Samtök skattgreiðenda hafa áður vakið athygli á athyglisverðum samningi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps við Hjallastefnuna um rekstur leik-, grunn- og tónlistarskólans í sveitarfélaginu. Virtist almennt ánægja með þennan samning. Menningar- og menntamálaráðuneytið, svo og forsvarsmenn Félags grunnskólakennara í Kennarasambandi Íslands, töldu á hinn bóginn sveitarfélaginu beinlínis óheimilt að reka ekki grunnskóla á eigin vegum. Eins sérkennilegt og það nú er.

Frétt úr MorgunblaðinuEn í frétt í Morgunblaðinu 18. mars kemur fram að Innanríkisráðu- neytið hefur tekið af skarið og staðfest sjálfsákvörðungarrétt sveitarfélagsins í þessu máli, og þar með annarra sveitarfélaga til að leita svipaðra lausna.

Samtök skattgreiðenda héldu málþing í nóvember á síðasta ári um fjármögnun grunnskólans í Svíþjóð. Þar fylgir framlag sveitarfélagsins barninu, en ekki tilteknum skólum, og foreldrar hafa frelsi til að velja skóla fyrir börn sín.  Kerfið var tekið upp í Svíþjóð árið 1991 og á þessum 20 árum hefur náðst marktækur árangur í gæðum náms og stöðu grunnskólans í alþjóðlegum samanburði. Nánar má fræðast um málþingið og valkortakerfið í Svíþjóð á vef Samtaka skattgreiðenda.

 

 


Harpa er ævintýraheimur ...

Björn Theódór Árnason, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna, skrifaði grein í Morgunblaðið 7. desember 2012, með þessari skemmtilegu fyrirsögn:

„Harpa er ævintýraheimur og þar gerast ævintýri á hverjum degi."

Mikið hefur Björn rétt fyrir sér. Á hverjum degi leggja skattgreiðendur fram yfir 3 milljónir króna svo þessi ævintýraheimur Björns geti staðið undir sér. Það eitt og sér er ævintýri líkast að tekist hafi að selja meirihluta þingmanna og borgarfulltrúa þá hugmynd að áhugamál örfárra skuli niðurgreitt af skattgreiðendum um ókomna tíð með fáheyrðum fjárhæðum.

Umsvipað leyti (22.12.12) skrifaði Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, líka grein í sama blað, þar sem tekið var í svipaðan streng, en fer þó aðeins nánar í rekstur hússins, eða þá botnlausu hít sem sá rekstur er. Um margt er í greininni fjallað um kostnað og tekjur, en í engu er þess getið að e.t.v. væri skynsamlegt að innheimta hærri gjöld af þeim sem nú þegar sækja viðburði hússins, enda væri það vart við hæfi að, eða hvað? Þeir eiga varla að borga fyrir ævintýrin sem þeirra njóta?

Og ævintýrin gerast enn. Þann 12. febrúar mátti lesa þessa fyrirsögn á frétt á forsíðu Fréttablaðsins:

Tveir milljarðar forða Hörpu frá gjaldþroti

Og undirfyrirsögnin var „Ríki og Reykjavíkurborg ætla að gefa eftir um 800 milljóna skuld vegna Hörpu. Vantar samt sem áður 1,2 milljarða til að lifa fram til ársloka 2016. Yfirtaka ríkis og borgar átti ekki að fela í sér aukinframlögn þegar tilkynntar var um hana árið 2009.”

Stórkostlegt ævintýri ... allt í boði skattgreiðenda.

Pétur Blöndal þingmaður komst vel að orði þegar hann sagði um Hörpu ævintýrið:

„Draumur fárra er að breytast í martröð margra."

Fréttablaðið 12.02.13

 


Undanþágu fyrir alla

Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram á Alþingi Stjórnarfrumvarp um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Samkvæmt samningi þessum er fyrirtækinu PCC, sem hyggst reisa kísilverið, tryggð sérréttindi umfram öll önnur fyrirtæki á Íslandi. Auk þess að geta fjárfest á Íslandi með sérstökum afslætti í boði Seðlabanka Íslands (fjárfestingarleiðin) og ýmissa ívilnana sem heimild er fyrir í lögum nú þegar þá verður þetta fyrirtæki undanþegið almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi. Nokkuð sem engum íslenskum fyrirtækjum stendur til boða.

Hvernig skyldi standa á því að öll lögmál skattheimtu virðast Steingrími J. Sigfússyni eingöngu virka í hans eigin kjördæmi. Aðeins í Norðausturkjördæmi virðist það eiga við að yfirgengileg skattheimta hamlar arðskapandi fjárfestingu og því ber að veita þar sérstaka undanþágu.

Sannleikurinn er sá að gjaldeyrishöft og deyðandi skattlagningarstefna stjórnvalda er að ganga af allri fjárfestingu og uppbyggingu á Íslandi dauðri eins og nýlegar tölur Hagstofunnar sýna.

Allt landið þarf á undanþágu Steingríms J. að halda, ekki bara eitt erlent stórfyrirtæki í kjördæmi hans - svona korteri fyrir kosningar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband