Undanþágu fyrir alla
17.3.2013 | 16:05
Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram á Alþingi Stjórnarfrumvarp um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi. Samkvæmt samningi þessum er fyrirtækinu PCC, sem hyggst reisa kísilverið, tryggð sérréttindi umfram öll önnur fyrirtæki á Íslandi. Auk þess að geta fjárfest á Íslandi með sérstökum afslætti í boði Seðlabanka Íslands (fjárfestingarleiðin) og ýmissa ívilnana sem heimild er fyrir í lögum nú þegar þá verður þetta fyrirtæki undanþegið almennu tryggingagjaldi og stimpilgjaldi. Nokkuð sem engum íslenskum fyrirtækjum stendur til boða.
Hvernig skyldi standa á því að öll lögmál skattheimtu virðast Steingrími J. Sigfússyni eingöngu virka í hans eigin kjördæmi. Aðeins í Norðausturkjördæmi virðist það eiga við að yfirgengileg skattheimta hamlar arðskapandi fjárfestingu og því ber að veita þar sérstaka undanþágu.
Sannleikurinn er sá að gjaldeyrishöft og deyðandi skattlagningarstefna stjórnvalda er að ganga af allri fjárfestingu og uppbyggingu á Íslandi dauðri eins og nýlegar tölur Hagstofunnar sýna.
Allt landið þarf á undanþágu Steingríms J. að halda, ekki bara eitt erlent stórfyrirtæki í kjördæmi hans - svona korteri fyrir kosningar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.