Málþing um grunnskólann okkar
21.11.2012 | 20:59
Samtök skattgreiðenda halda ráðstefnu um nýja nálgun og hugsun í rekstri grunnskólans. Kostnaður við grunnskólann er óvíða meiri en á Íslandi samkvæmt nýlegri skýrslu frá OECD. Getur önnur nálgun við rekstur grunnskólans verið skilvirkari og skilað sambærilegum eða betri árangri í kennslu?
Fyrir 20 árum var svokallað ávísanakerfi tekið upp í Svíþjóð, þar sem kostnaðurinn við skólagönguna fylgir barninu, ekki tilteknum skóla. Foreldrum er heimilt að velja grunnskóla fyrir börn sín og greiðslan fer til þess skóla sem valinn er. Skólarnir eru mismunandi og ýmist reknir af sveitarfélögum, sjálfeignarstofnunum eða fyrirtækjum. Tryggir samkeppni betri skilvirkni og meiri framþróun í skólastarfi nemendum til heilla?
Á Íslandi eru reknir nokkrir sjálfstætt starfandi skólar, en innan við 1% nemenda grunnskólans sækja slíka skóla. Þessum skólum er í flestum tilvikum ekki búið sama umhverfi og skólum sem sveitarfélögin reka, en með undantekningum þó. Ráðstefnan fjallar einnig um stöðu þeirra í dag.
Ráðstefnan verður haldin í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 23. nóvember og hefst kl. 14:00.
Frekari upplýsingar á vef Samtaka skattgreiðenda.
Flokkur: Menntun og skóli | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.