Enn fara kröfugerðamenn fram með áhugamál sín

Í dag birtir Morgunblaðið grein um kröfu SÁÁ til 10% þess áfengisgjalds sem ríkissjóður innheimtir. Munu 19.000 manns hafa skrifað nöfn sín á undirskriftalista, þar á meðal nokkur sveitarfélög. Söfnunin gengur undir nafninu „Betra líf“ og er ekki skilgreind frekar. SÁÁ eru samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda og þiggja þau nú samkvæmt fjárlögum næsta árs 686 milljónir í styrk frá ríkinu. Hvert framlag áhugamannahópsins til verkefnisins er liggur ekki fyrir. Samkvæmt tölum formanns samtakanna á síðu SÁÁ er áætlað að ríkissjóður innheimti á næsta ári 11.8 milljarða í áfengisgjöld og sem lætur nærri að SÁÁ sé því að gera kröfu um að fá í sinn rekstur 1.200 milljónir úr ríkissjóði, þ.e. 500 milljónum meira en þessar 686 milljónir sem þeir eiga nokkuð vísar á næsta ári.

Nú er ekki að efa að vandi SÁÁ er stór en samtökin hafa líka haft nokkuð sjálfdæmi um að skilgreina þarfir sínar. En er réttlætanlegt að félag áhugamanna um vímuefnavanda hafi beinan aðgang að ríkissjóði? Í stjórnartíð núverandi ríkisstjórnar hafa áfengisgjöld verið hækkað þrisvar sinnum, árið 2009, 2010 og 2011. Þessi aukning kemur úr vösum viðskiptamanna sem eiga ekkert val um hvert þeir beina viðskiptum sínum. Ekki hefur komið fram hvernig áfengisgjaldinu eða tengdum gjöldum (vanrækslugjöldum, tollum og virðisaukaskatti) er annars varið, þ.e. hvort gjaldið renni óskipt til málefna vímuvarna eða hvort klipið sé af því til sérstakra hugðarefna ríkisstjórnarinnar. Má þó gera ráð fyrir að vímuefnadeild Landspítalans og aðrar skyldar stofnanir fái hluta gjaldsins og fjárveiting SÁÁ komi einnig úr þessum potti. Auk þess er Lýðheilsusjóður áskrifandi að 1% innheimts gjalds og fer annað 1% til Forvarnasjóðs. Geri maður ráð fyrir að um samnýtingarpott sé að ræða og fái SÁÁ 500 milljón króna hækkun úr pottinum þarf að gera grein fyrir frá hverjum þessir peningar eru teknir og þá hvort hækka þurfi áfengisgjaldið enn á ný eða leggja á nýja skatta.

Síðast en ekki síst þurfa menn að gera sér grein fyrir að fái SÁÁ kröfu sinni framgengt hefur ríkið gefið eftir stjórn sína á hvaða þjónustu hún kaupir og hvaða þjónustu sé eðlilegt að ríkið greiði fyrir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband